Þáttur um Loga frá Vestmannaeyjum, RÚV 1966 Romm handa Rósalind, RÚV 1968 Ahmal og næturgestirnir, RÚV 1968 Ástardrykkurinn, RÚV 1969 Götumynd úr Brekkukotsannál eftir sögu HKL 1972 Don Juan, RÚV 1974 Blóðrautt sólarlag, RÚV 1976 Undir sama þaki, RÚV 1977 Paradísarheimt, NDR 1979 |
Á BAK VIÐ TJÖLDIN Íslenskt sjónvarp er 40 ára um þessar mundir. Ég tók þátt í undirbúningi þess og starfaði þar fyrstu tíu árin við leikmyndagerð. Hreyfing í þá átt að skrá og varðveita leiklistarsögulegar minjar, þ. á m. ýmislegt er lýtur að leikmyndagerð, varð til þess að ég fór að rifja upp þennan tíma eins og ég man hann. Sjónarhornið er því meira persónulegt en fræðilegt en frásögnin ætti engu að síður að varpa nokkru ljósi á hluta þess starfs sem unnið var á bak við tjöldin í sjónvarpinu fyrstu tíu árin. Það kunni svo sem enginn að gera sjónvarp á Íslandi árið 1966. Þetta var nýtt fyrir öllum, bæði starfsfólki og áhorfendum og það var samstilltur hópur ungs fólks sem réðst til starfa hjá sjónvarpinu, með einn og einn „fullorðinn'' inn á milli, sér til fulltingis. Og ævintýrið gekk upp, sjónvarpið sló í gegn og varð snar þáttur í daglegu lífi þjóðarinnar fyrr og með meira afgerandi hætti en menn hafði órað fyrir. Þeir sem þar störfuðu fengu tækifæri sem aldrei höfðu boðist áður, og þeir sem þar komu fram urðu þjóðkunnir á svipstundu. Þessi samantekt er hvorki fullkomin né fullgerð, meira þarf að grúska til að fá heillega mynd, en þetta er í það minnsta tilraun af minni hálfu til að halda til haga broti af þeirri góðu stemmingu sem ríkti á bak við tjöldin í sjónvarpinu fyrsta áratuginn. Þeir sem birtust á skjánum urðu andlit sjónvarpsins og sumir urðu ráðherrar og borgarstjórar, en við sem unnum að tjaldabaki þurfum stundum að minna á okkar þátt í heildarmyndinni. Leikmyndagerðin gleymdist Sumarið 1966 var farið að huga að innlendum þáttum. Steindór Hjörleifsson leikari, fyrsti dagskrárstjóri sjónvarpsins, gerði samning við Savanna-tríóið um að sjá um sex tónlistar- og skemmtiþætti. Þar var undirritaður innanborðs og var afráðið að ég sæi um leikmyndir fyrir þætti tríósins. Voru menn nú búnir að átta sig á því að eitthvað yrði að vera „fyrir aftan" þá, sem fram kæmu, jafnt í fréttum sem öðrum þáttum, og var ég ráðinn til þeirra starfa 1. ágúst 1966. Ég hafði haft hug á því að fara í nám í arkitektúr þegar þetta bar að, en hér tóku örlögin í taumana. Andrés Indriðason sem verið hafði blaðamaður á Morgunblaðinu og fylgst með ferli tríósins var nú kominn til starfa hjá sjónvarpinu sem dagskrárgerðarmaður og átti hann eflaust sinn þátt í að þessi varð þróun mála. Ég hafði sótt einhver teikninámskeið og gert leikmyndir fyrir þrjár sýningar Herranætur MR, það var öll reynslan. Leikfélag Reykjavíkur var þá með svo litla starfsemi að Herranótt fékk yfirleitt inni í Iðnó. Við Þórir Baldursson, félagi minn í tríóinu, málaðuðum fyrstu leikmyndina saman árið 1963. Það voru „Kappar og vopn" eftir Bernard Shaw, en Steinþór Sigurðsson teiknaði tjöldin. Svo tók ég við 1964 og gerði leikmynd við „Ímyndunarveikina" eftir Moliere, sem Haraldur Björnsson leikstýrði, svo „Grímudans" eftir Holberg 1965 í leikstjórn Helga Skúlasonar og loks „The Importance of being Earnest" eða „Bunbury" eftir Oscar Wilde, sem var leikið var á stóra sviði Þjóðleikhússins, undir leikstjórn Benedikts Árnasonar. Ég hafði því sett upp leikmyndir í báðum atvinnuleikhúsunum og unnið með fremstu leikstjórum landsins þegar ég útskrifaðist sem stúdent 1966. Útsendingar undirbúnar Útsendingar hófust 30. september 1966 og fram til áramóta voru framleiddir um 30 stakir innlendir þættir í sjónvarpssal sem þurftu leikmyndagerðar við. Í fyrstu var aðeins sent út tvö kvöld í viku, á miðviku- og föstudagskvöldum. Í janúar 1967 hófust útsendingar á sunnudögum og þá kom „Stundin okkar" til sögunnar, en henni fylgdi ávallt einhver leikmyndagerð. Um sama leiti hófst fréttaútsending kl. 20. Mánudagar bættust við útsendingu í febrúar, þriðjudagar í september o.s.frv. Fimmtudagar voru þó sjónvarpslausir allt þar til Stöð 2 hóf göngu sína árið 1986. Almennt má fullyrða að öll hafi þessi þróun gengið mun hraðar fyrir sig en menn höfðu áætlað í fyrstu. Sjónvarpið fékk tekjur af innflutningi sjónvarpstækja og höfðu norskir sérfræðingar spáð því að það tæki allmörg ár að sjónvarpasvæða þjóðina. Þeir þekktu hins vegar ekki Íslendinga sem tóku víxla og keyptu sér sjónvarpstæki með afborgunum, allir sem einn, enda veikir fyrir nýjabrumi. Sjónvarpið sló rækilega í gegn og var komið á hvers manns heimili fyrr en varði. Í mörg horn að líta Grafíkin var einnig frumstæð til að byrja með. Setja þurfti heiti þátta og nöfn þátttakenda og starfsmanna á skilti og var „Letrasettið" helsti bjargvætturinn árum saman. Þar nudduðu menn hvítum bókstöfum á svart karton í gríð og erg. Síðan komu rúllutextar til sögunnar í kreditlista. Þá var svörtu letrasetti nuddað á hvítar pappírsrúllur úr textavélrituninni og gert negatíft í myndstjórn. Fljótlega voru þrír Birnir komnir í leikmyndadeildina, Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn; Björn Emilsson, sem sá um grafíkina í byrjun (nú upptökustjóri), Björn Kristleifsson, sem var flinkur að teikna, smíða og mála (nú arkitekt), og undirritaður. Þetta teymi vann vel saman, gjarnan dag og nótt, og gekk svo um hríð. Yngismærin Rósa Ingólfsdóttir kom svo til starfa í grafíkinni, útskrifuð úr „Mynd og Hand" og var strax efni í þá þjóðsagnapersónu sem hún síðar varð, feimin og flippuð í senn. Margir snillingar hafa núið letrasett á teiknistofunni, þeirra á meðal er Gunnar Baldursson, sem síðar sneri sér að leikmyndahönnun, og veitir nú deildinni forstöðu. Frábærir starfsmenn Í fyrstu hafði sjónvarpið ekki allt bakhúsið til afnota. Bílasmiðjan þurfti sinn tíma til að rýma hluta þess. Það var stór stund þegar leikmyndadeildin fékk suðurendann til ráðstöfunar undir smíðaverkstæði, málarasal og leikmunageymslu. Milliloft frá Bílasmiðjunni var látið halda sér. Var leikmunageymsla innréttuð undir því en leiktjaldageymsla ofaná. Skilti af Borgarnesrútu var hengt yfir dyr leikmunageymslunnar og hét hún ævinlega „Borgarnes". Þar réð Halli ríkjum. Þar var stundum kósí lýsing og góð stemming og oft slappað af eftir erfiðar upptökur. Fóru menn þá gjarnan með heila kafla utanað úr þeim leikritum, sem verið höfðu í upptöku þann daginn. Smíðaverkstæði var afstúkað til hljóðeinangrunar. Þar réðu lengi ríkjum völundurinn Jón Sigurðsson, nú látinn, Guðmundur Þorkelsson og Sigvaldi Þór Eggertsson, allt 100% fagmenn, og Páll R. Magnúson stjórnaði verkstæðinu af röggsemi. Til að byrja með var farið í húsgagnabúðir og fengið lánað, allir vildu ólmir lána Sjónvarpinu. Smám saman byggðist þó upp lager af dóti; t.d. svokallaðir barnatímakubbar, sem lengi voru í notkun, hurðir, gluggar o.fl. Fljótlega voru öll skúmaskot orðin full og fékkst geymsluhúsnæði í Súðavogi, einkum fyrir stóra strigafleka. Það stóð þó stutt og ágætt húsnæði á tveim hæðum fékkst í bakhúsi við Lækjarteig. Á neðri hæð var leiktjaldageymsla en uppi leikmunasafnið, saumastofa og búningasafn. Halli lét þau orð falla þegar honum var ljóst, að nú yrði hann að sækja húsgögn og allt stærra propps þangað, að þetta væri langt niður í rassgati. Staðurinn hét aldrei annað en „Rassgat" upp frá því. Ekki var mikið spáð í búningagerð til að byrja með, fengið lánað í leikhúsum eða verslunum þegar á þurfti að halda. En með fjölbreyttara verkefnavali, skemmtiþáttum, barnaefni og leiknu efni, var komin þörf fyrir sérstaka búningadeild. Sjónvarpið átti því láni að fagna að fá til starfa Árnýju Guðmundsdóttur, hattadömu, og lagði hún grunninn að saumastofu og búningasafni sjónvarpsins. Hún var fljót að tileinka sér sérþekkingu á íslenskum búningum og stílsögu og hélt öllu í röð og reglu Mikið unnið Stærð stúdíósins var alveg sæmileg, 15 x 20 metrar, en lofthæð aðeins 4 metrar. Það er helmingi of lágt; víð mynd sem er 12 m á breidd er 9 m há. Með þessari lofthæð varð helmingur svo víðrar myndar gólf. Þetta hafði áhrif á þær lausnir sem hægt var að beita, og gólfið var oft málað og skreytt. Steinþór Sigurðsson fékk því framgengt að mála á stúdíógólfið í fyrsta sinn sem leikmynd úr Iðnó var sett upp í sjónvarpinu, en fram að því hafði ekki komið til greina að mála á þennan líka fína gólfdúk sem þar var. Sjónvarpið eignaðist stóra myndvörpu sem var talsvert notuð fyrir bakgrunnsmyndir. Gallinn við hana var þó sá, að hún hafði tiltölulega þrönga linsu. Til að ná víðri mynd þurfti hálft stúdíóið fyrir geislann. Myndinni var varpað aftan á hálfgegnsæan dúk sem strengdur var á álramma. Þetta back-projection tjald var lengi geymt á bak við horisontinn ásamt leikmyndinni fyrir jóla- og páskamessurnar, á meðan þær voru teknar upp í sjónvarpssal. Þá leikmynd gerði ég fyrir fyrstu jólamessu 1966 og Sigurbjörn biskup blessaði hana sérstaklega. Leikið efni Steindór Hjörleifsson kom beint úr leikhúsinu. Hann stóð snemma fyrir því að nokkur leikrit, sem voru í sýningu í atvinnuleikhúsunum, voru tekin upp í sjónvarpssal. Hann hugsaði þessar upptökur öðrum þræði sem varðveisluform. „Jón gamli" úr Þjóðleikhúsinu, með Val Gíslason í aðalhlutverki, var tekinn upp 27.4.67 og „Þjófar, lík og falar konur" úr Iðnó 23.5.67., en þar koma fram margir af helstu leikurum LR, meðal þeirra Haraldur Björnsson. Romm handa Rósalind Lítil saga af óperettu Ekki var sú skemmtun langt gengin þegar Tage Ammendrup hringdi ofan úr sjónvarpi og spurði hvar leikmyndin við annan þátt væri? Hvaða leikmynd? spurði ég. Nú, útiveitingahúsið, sagði Tage. Eitthvað höfðu upplýsingar um að óperan væri í tveimur þáttum skolast til, og ég kom af fjöllum. Tage spurði hvort við gætum ekki reddað þessu? Ég sagði jú. Samkomunni var slitið, hver fór til síns heima, í skítagallann og í vinnuna. Sumir fóru að taka niður, aðrir inn í Súðarvog að sækja fleka og annað dót. Svo var unnið alla nóttina og útiveitingahúsið sett upp með dúkuðum borðum, gardínum fyrir gluggum og hvaðeina. Eitthvað dróst að upptaka gæti hafist að morgni og blessað söngfólkið beið líklega í heila klukkustund. Ég var tekinn alvarlega á teppið hjá Jóni Þórarinssyni, dagskrárstjóra, sem væntanlega hafði meiri samúð með músíköntunum en mér, og ég lofaði Jóni að gera þetta aldrei aftur. Hef líklega verið of þreyttur til að malda í móinn. Mér hefur alla tíð þótt ákaflega vænt um Jón Þórarinsson, sem hafði mikinn metnað fyrir hönd sinnar deildar. Í hans tíð var framleitt meira af leiknu efni en í nokkurn annan tíma. Skemmtiþættir og sitthvað fleira Þátturinn „Við erum ung" var fyrst tekinn upp 26.8.66, skákþáttur Guðmundar Arnlaugssonar, „Í uppnámi" 28.-29.8.66, „Í svipmyndum" með Steinunni Briem 16.9.66, „Kvöldstund með Los Valldemosa" 21.10.66, „Kvöldstund í Feneyjum" með erlendum listamönnum 27.10.66, „Ennþá brennur mér í muna", dagskrá um Tómas Guðmundsson 28.10.66, „Æskan spyr" 1.11.66, „Kvöldstund með Ása í Bæ" 1.11.66, söngkonan Ulla Pia 7.11.66, Töframaðurinn Viggo Sparr 14.11.66, „Kvöldstund með Al Bishop" 15.11.66, „Í pokahorninu" með Árna Johnsen 22.11.66, grínarinn Mats Bahr 29.11.66, söngflokkurinn „The Harbour Lights" 30.11.66, „Svart og hvítt" um Jón Kaldal ljósmyndara 2.12.66, „Við erum ung" með Skuggum úr Keflavík 6.12.66, „Kertaljós og klæðin rauð", jólaþáttur Savanna tríósins 22.12.66 og loks var fyrsta „Áramótaskaupið" tekið upp 30.12.1966 og sent út daginn eftir! Af þessari upptalningu má glöggt sjá hve upptökum var þétt skipað strax á fyrstu mánuðum sjónvarpsins. Tveir upptökustjórar skiptu á milli sín verkefnum Lista- og skemmtideildar mörg fyrstu árin, Andrés Indriðason og Tage Ammendrup. Starfsmenn sjónvarpsins í fyrstu voru flestir ungir að árum, þó leyndist einn og einn „fullorðinn" innanum. Einn þeirra var Tage. Ég minnist þess vel þegar hann varð fertugur. Okkur þótti hann orðinn alveg óskaplega aldraður og gáfum honum ruggustól og værðarvoð til að eiga í ellinni. Tage var með afkastasömustu upptökustjórum sem um getur, og héldu menn upp á þúsundustu upptöku hans hér um árið. Blessuð sé ævinlega minning hans, en hann var m.a. fyrsti plötuútgefandi Savanna tríósins. Allir voru byrjendur Hið góða við þessa eldskírn var, að maður kynntist faginu „the hard way", og þegar að því kom að ég fór til Danmarks Radio til starfsþjálfunar, vissi ég nokk hvað það var sem ég ætti að leggja áherslu á og hvað hentaði við okkar aðstæður. Það var svo þremur árum eftir að ég hóf störf við sjónvarpið að ég hélt til Köben með konuna og VW-bjölluna um borð í Gullfossi í september 1969. Við starfi mínu tók Snorri Sveinn Friðriksson, sem þá var útlitsteiknari á Vikunni. Snorri Sveinn var ekki aðeins menntaður myndlistarmaður heldur einnig vandaður smekkmaður, yfirvegaður, traustur, og drengur góður. Snorri hafði afar góð áhrif á deildina og fagmennska jókst mjög á öllum sviðum með tilkomu hans. Í TV-byen Ég var 2-3 vikur í hverri deild; á teiknistofu, smíðaverkstæði, samsetningarsal, málarasal, specialeffekt-verkstæði, proppsi, búningum og í stúdíói. Síðustu mánuðina vann ég svo sem „fullmægtig scenograf" við verkefni af ýmsum toga. Þarna voru einir 12 leikmyndateiknarar og yfirmaður deildarinnar, Jørn Mathiassen, litríkur og vel þekktur karakter í Danmörku, bæði fyrir langt starf við leikmyndagerð, frábærar grafíkmyndir og mörg hjónabönd með fögrum, dönskum leikkonum. Mathis, eins og hann er kallaður, hélt vikulega fundi á skrifstofu sinni, sýndi myndir á tjaldi og búta á sjónvarpsskjá úr verkum, sem ýmist voru í vinnslu eða í útsendingu. Hann gagnrýndi undirmenn sína og hrósaði þeim á víxl, benti á eitt og annað, og spurði menn út í hvers vegna þeir hefðu haft þetta svona - eða hinsegin - eftir atvikum. Mathis gaf mér eitt ráð áður en ég hélt heim á ný (fyrir utan það að leggja áherslu á gott handverk) og það var, að við skyldum fara varlega með liti þarna uppi á á Íslandi. Litir væru voðalegir hlutir í sjónvarpi. Hann léti sér t.d. alveg nægja varalit söngkonu í skemmtiþætti. Áður en ég kvaddi kóngsins Kaupmannahöfn fékk ég fjárveitingu hjá sjónvarpinu og keypti nokkra kassa af leikmunum í einni af stærri antikverslunum borgarinnar, einkum ýmsa skrautmuni og smáhluti. Þessi viðbót við safnið kom sér vel og bætti úr brýnni þörf fyrir 19. aldar stílmuni, og lengi vel gengu þessir hlutir aftur í leikmyndum sjónvarpsins. Þeir munu nú all flestir hafa týnt tölunni. Leikmyndadeildin stofnuð Heima var allt jafnsmátt og áður en við lögðum nú meiri áherslu á að menn kynnu til verka. Deildin óx að mannafla og getu og tókst á við mörg uppörvandi verkefni á næstu árum, ekki síst við upptökur leikrita, en um tíma var tekið upp eitt íslenskt leikrit á mánuði í sjónvarpinu. Leikmyndadeildin skilaði þeim öllum með sóma og varð með tímanum sterk faglega og afkastamikil. Þau 10 ár sem ég vann hjá sjónvarpinu var unnið í svart-hvítu og allt málað í gráum tónum. Samið var við Hörpu um blöndun málningar í grátónaskala frá einum og upp í tíu og var hann lengi í notkun. Maður lærði vel á kontrastinn og var nokkuð glöggur að sjá hvar stóll, búningur eða annað lenti í skalanum, og hvað mátti þá nota sem bakgrunn, gólf o.s.frv. svo ekki rynni allt saman. Þó var gjarnan brugðið á leik með liti, ekki síst til að skapa stemmingu í stúdíóinu þótt ekki kæmi það fram á skjánum. Oft var Jón Þórisson glaðlegur í litunum eftir að hann kom til starfa. Þegar nálgaðist litvæðingu var allt unnið í réttum litum, og búningar voru það alla jafna, svo búningasafnið yrði ekki úrelt þegar liturinn kæmi. Kosningasjónvarp Svo til allar útsendingar og upptökur á dagskrárefni fóru fram í þessu eina stúdíói og allt tekið á myndband. Þó hafði verið kvikmyndað í stúdíóinu í undantekningartilvikum, nægir að nefna „Örlagahárið" óperu-satýru eftir Flosa Ólafsson og Magnús Ingimarsson. Þrándur Thoroddsen kvikmyndaði 1967. Kvikmyndadeildin var fyrst og fremst til að sinna fréttastofunni því fréttir voru teknar á filmu í þá daga. Framköllun, klipping, hljóðsetning og önnur aðstaða fyrir filmuna var í austurenda hússins og tengdist dagskrárgerðinni lítið framan af. Með árunum var þó farið að kvikmynda verk utanhúss. Leikrit Sigurðar Péturssonar, „Hrólfur", var að hluta kvikmyndað á Keldum á Rangárvöllum 1969, og lítil mynd eftir Svein Einarsson, „Viðkomustaður", 1970 á Suðureyri við Súgandafjörð. Síðar var ráðist í að kvikmynda „Lénharð fógeta" (1974) og síðar mynd um Snorra Sturluson, en frá því verða aðrir að segja. Síðasta sumarið mitt hjá sjónvarpinu var haldið til Djúpuvíkur með Hrafni Gunnlaugssyni og tekin myndin „Blóðrautt sólarlag". Þar var beitt ýmsum effektum, maður var skotinn með haglabyssu og datt afturábak út um glugga á 5. hæð, kvikmyndakrani smíðaður úr rekaviði og fleira skemmtilegt brallað í ógleymanlegri ferð með skáldinu hugumdjarfa. Brekkukotsannáll Stór hópur smiða, málara og aðstoðarmanna var ráðinn til verka, torfbærinn reistur við litla tjörn í Gerðum í Garði, sáð til rófna og kartöflur settar niður í blíðunni. Og það var eins og við manninn mælt, þegar tökur hófust í júní brast á með einhverju alræmdasta rigningarsumri sem um getur. Gatan „Langastétt" var byggð í heilu lagi í holtinu fyrir ofan Geldingarnes-eiðið í Gufunesi (nú Grafarvogshverfi) og fauk í það minnsta einu sinni eins og hún lagði sig. Sömu nótt hurfu hafnarkamrar, hátíðarhlið og önnur nýreist mannvirki á Eyrarbakka í mesta brimi sem þar hafði komið í manna minnum. Kvikmyndað var á fjölmörgum öðrum stöðum, bæði úti og inni, en aðalmyndverið var í Skeifunni 11. Þar var bærinn byggður fyrir innitökur ásamt fjóslofti. herbergi á Hótel Íslandi o.fl. Upptökur stóðu lengi hausts og reyndu mjög á menn og málleysingja; hænur sem þvælst höfðu í pappakössum vikum saman töpuðu tímaskyninu og urpu hvar sem þær tylltu niður fæti, og kýrin sem flengdist í sendiferðabíl frá Garðinum upp á Lágafell, í Árbæjarsafn og á fleiri staði, bar aldrei sitt barr eftir þetta. Og rauðmagarnir enduðu í Kleifarvatn þegar síðustu upptökum á voratriðum lauk þar í slydduveðri í október. Þeir höfðu þá leikið grásleppu af og til allt sumarið og voru ekki sjón að sjá. En útkoman var dásamleg. „Brekkukotsannáll" er ævintýralega falleg, einlæg og vel heppnuð sjónvarpsmynd í alla staði. Hún var sýnd um alla Evrópu og fékk margvíslegar viðurkenningar. Hinn frábæri kvikmyndatökumaður, Peter Hassenstein, var sá sem hélt þráðunum saman. Það var hann sem keyrði menn áfram þegar aðrir voru að gefast upp, og það var hann sem gaf leikmyndamönnum stóra rommvindla þegar þeir voru að missa móðinn. „Brekkukotsannáll" var stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hafði verið í hér á landi og kom á afar mikilvægum tíma. Þar fengu margir sína eldskírn og reynslan sat eftir. Nú voru menn tilbúnir til að takast á við hvað sem var. Að lenda í verkefni eins og þessu er á við marga kvikmyndaskóla. Leikmynd, búningar og allt útlit myndarinnar var með ágætum, og undirrituðum var tjáð að hans biði vís frami í þýsku sjónvarpi, stæði hugurinn til þess. Verkefni hjá sjónvarpinu eftir 1976 Oft saknaði ég deildarinnar síðar þegar ég tókst á við svipuð verkefni annars staðar, og ég átti þess líka kost að vinna með mínum gömlu félögum endrum og eins. 1977 sömdum við Egill Eðvarðsson og Hrafn Gunnlaugsson 6 leikna gamanþætti, „Undir sama þaki" og ég gerði leikmynd, íbúð í blokk, sem var notuð sex sinnum með breyttum leikmunum. 1978 unnum við aftur saman „Silfurtunglið", sjónvarpsgerð Hrafns á leikriti Laxness. Mikið sjó. Í guðsborg Síon Sama ár var ballettinn „Grafskrift" (Sæmundur Klemensson) tekinn upp, en ég hafði gert leikmynd við hann í Þjóðleikhúsinu áður. Og árinu lauk með því að við Tage sömdum Áramótaskaup þar sem Alþingishúsinu hafði verði breytt í diskótek. Allt í glimmer og bleiku. Júróvisjón Leikmyndateiknarar Nokkrar sýningar voru haldnar á verkum leikmyndateiknara á áttunda áratugnum. Tíu teiknarar sendu verk á sýningu í Álaborg í maí 1974. Sýning var líka á Kjarvalsstöðum í byrjun október 1979 og leikmyndateiknarar sömdu sama ár við Torfuna um að sýna þar um skeið. Árið 1979 vorum við Jón Þórisson sendir á norrænt leikmyndateiknaranámskeið í Svíþjóð. Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt. Sögðu menn frá aðbúnaði greinarinnar hver í sínu landi. Danir fóru fljótlega að diskútera launamál og matartíma og fleiri félagsleg úrlausnarefni. Risu þá Finnar upp við dogg og spurðu: „Skal man prata pengar eller skal man prata konst?" Úr því urðu umræðurnar háfleygari og skemmtilegri. Að lokum Með kæru þakklæti til samstarfsmanna í gegn um tíðina, Björn G. Björnsson, Frekari upplýsingar um upptökur og einstök verkefni er að finna á vef Leikminjasafns Íslands: www.leikminjasafn.is |
Björn G. Björnsson - sýningahönnun - Engjaseli 41 - 109 Reykjavík - gsm 892 8441 - netfang: leikmynd@leikmynd.is |